Leiðbeiningar um mat á upplestri

Þegar keppnin fór af stað töldu margir að erfitt mundi reynast að meta gæði upplestrar. Vissulega getur mat á upplestri verið smekksatriði en þó má hæglega meta fullkomlega hlutlægt nokkur atriði.  

Dómnefndir á lokahátíðum styðjast við sérstakt eyðublað  til að meta frammistöðu upplesara. Á eyðublaðinu er gert ráð fyrir að hver lesari lesi þrisvar.

Hér eru nefndir sjö þættir sem taka má tillit til þegar framsögn er metin. Hér eru nefndir sjö þættir sem taka má tillit til þegar framsögn er metin.

Líkamsstaða


Lesari kemur sér vel fyrir áður en hann byrjar, og fer sér að engu óðslega. Hann þarf að standa beinn og í báða fætur, draga andann djúpt og horfa fram. Hangandi eða slöpp staða kemur niður á lestrinum.

Raddstyrkur


Berst röddin út í hvert horn stofunnar? Góð öndun og stuðningur frá gólfi og magavöðvum skiptir máli. Til þess að röddin berist þarf að anda djúpt og finna hljóm raddarinnar. Spenna eða klemma í hálsi dregur úr radd­styrk og hefur slæm áhrif á tónfall.

Notkun talfæra


Þegar talað er yfir stóran hóp þarf að kveða fastar og skýrar að en þegar talað er við fáa eða lesið úr sæti í skólastofu. Til þess þarf að hreyfa tal­færin svo að sjáist. Þeim sem vanir eru að tuldra kann að virðast sem hreyf­ingar verði ýktar en svo ætti ekki að vera. Í þessu þarf hver og einn að leita jafnvægis, en miða má við að munnhreyfingar sjáist það vel að heyrnar­daufur maður geti haft stuðning af vörum til að heyra það sem sagt er. Bendið á sjónvarpsþuli til saman­burðar. Sumir eru til fyrirmyndar – aðrir ekki.

Framburður


Framburður þarf að vera vandaður og svo skýr að hvert orð skiljist. Í vönd­uðum framburði er gert ráð fyrir ýmsum eðlilegum samlögunum og brott­föllum hljóða. Sérhljóð þurfa að vera rétt mynduð og öll þau samhljóð skýr sem eðlilegt er að heyrist í vönduðu samfelldu talmáli. Svokallaður „stafsetn­ingar­framburður“ er hins vegar til lýta. Eðlilegt er að segja: „Kvað erðetta maður?“ í vönduðum reykvískum framburði, hvað sem stafsetning­unni líður. Hins vegar er óvandað að segja: „Gvadamar?“Áherslur og tónfall þurfa að vera rétt og eðlileg miðað við merkingu og túlkun lesmálsins.

Tími og þagnir


Gefur upplesarinn sér tíma til að koma merkingunni til skila? Börnum hættir mjög til að lesa of hratt þegar þau lesa upphátt. Nemandi sem les of hratt fyrir aðra hefur enga möguleika á að koma til skila blæbrigðum í textanum, hann hefur ekki tíma til að setja þagnir og áherslur og öll framsögn og samskipti við áheyr­endur fer í handaskolum. Mikilvægt er að upplesari gefi sér tíma til að setja þagnir á réttum stöðum eða hægja á lestrinum þar sem það á við. Kennari þarf iðulega að ítreka við nemendur að lesa hægar. Þá er eins og margt annað komi af sjálfu sér.

Blæbrigði og túlkun


Er lesturinn í samræmi við efnið? Upplesari þarf að lesa af skilningi og miðla honum á einlægan en hófstilltan hátt til áheyrenda. Hér skiptir mestu að lesari skilji efnið til hlítar og flytji áheyrendum þann skilning. Blæbrigði í lestri geta oft ráðið úrslitum um hvort og hvernig áheyrandi skilur það sem sagt er. Ástæða er til að vara sérstaklega við að oftúlka ekki textann með upphöfnum lestri eða leikrænum tilburðum. Slíkur flutningur hentar ekki hinum ungu upplesurum og er ekki í samræmi við markmið keppninnar.

Samskipti við áheyrendur


Áður en upplestur hefst þarf upplesari að gefa sér tíma til að líta framan í áheyrendur sína svo þeir finni strax að talað sé til þeirra. Gefa þarf gaum að öllum salnum, jafnt þeim fremsta sem hinum aftasta. Lesari skyldi alltaf hafa þann í huga sem aftast situr, það gefur lestrinum meiri kraft. Gott er að líta upp við og við meðan lesið er – og alltaf að lestri loknum. Góð samskipti við áheyrendur verða til þess að þeir fylgjast betur með og lesturinn verður blæbrigðaríkari.

Störf dómnefnda


Þegar dómnefnd þarf að meta upplestur togast iðulega á sjónarmið um hvort á að vega þyngra, skýrleiki framburðarins eða skilningur og túlkun. Og svo má alltaf deila um smekk þegar túlkun er annars vegar.

Þeir sem meta upplestur á lokahátíðum af hálfu Radda hafa eftirfarandi að leiðarljósi:

  • Frumskilyrði er að framburður sé vandaður og skýr en það er ekki alltaf nóg. Vandaður og skýr framburður getur verið líflaus flutningur. Dómnefndum er iðulega vandi á höndum þegar gera þarf upp á milli tveggja lesara þar sem annar les hátt og snjallt en vantar sálina í lesturinn, en hinn nokkuð lægra, stuttu tvíhljóðin ekki alveg nógu skýr en flutningurinn engu að síður heillandi. Í slíkum tilvikum getur komið upp ágreiningur um verðlaunasæti og þar þarf dómnefnd að gæta meðalhófs.
  • Túlkun á efni skal vera hófsöm en miðla fullum skilningi á efninu þannig að áheyrendur skynji hver þessi skilningur er. Sá skilningur sem upplesari miðlar verður að vera einlægur skilningur þess sem les. Fyrir kemur að börn eru þjálfuð til að flytja ljóð eins og lærður leikari eða aðrir fullorðnir vilja hafa þau. Ekki er rétt að kenna börnum upplestur á þann hátt og slíkur flutningur verður falskur og óekta þótt hann kunni að fara fullorðnum vel. Yfirdrifin leikræn túlkun er ekki metin til verðlauna af dómnefndum.
  • Börnum hættir til að láta bragarhátt ráða upplestri ljóða. Kvæði undir hefðbundnum bragarháttum skal lesa fyrst og fremst af skilningi á efninu en þó verða stuðlar og rím að fá að njóta sín.