Um keppnina

Veturinn 1996–1997 var haldin keppni í upplestri meðal nemenda 7. bekkjar í fimm skólum í Hafnarfirði og á Álftanesi. Að þessari keppni stóð nefnd sem kallaði sig ‘undirbúningsnefnd um landskeppni í upplestri'. Að baki því nafni bjó sú ætlun nefndarinnar að keppnin næði til landsins alls innan fárra ára. Aðstandendur nefndarinnar frá upphafi hafa verið Heimili og skóli, Íslensk málnefnd, Íslenska lestrarfélagið, Kennaraháskóli Íslands, Kennarasamband Íslands og Samtök móðurmálskennara. Árið 2003 bættust Rithöfundasamband Íslands og Samtök forstöðumanna almenningsbókasafna í hópinn. Vorið 2004 voru stofnuð formleg samtök, Raddir, samtök um vandaðan upplestur og framsögn, með aðild allra þeirra sem áður voru í undirbúnings­nefndinni, nema Íslenska lestrarfélagsins, sem þá hafði verið lagt niður. Raddir hafa séð um framkvæmd keppninnar síðan.

Upplestrarkeppnin er haldin að frumkvæði áhugafólks um eflingu tungunnar en er ekki greidd af yfirvöldum né skilgreind opinberlega sem hluti af verksviði skólayfirvalda. 

Verkefnið hefur hlotið afbragðsviðtökur skólafólks, og sérstaklega ánægjulegt er að finna hvað nemendur hafa sýnt mikinn áhuga á að leggja sig fram um að lesa upp af listfengi. Skólaskrifstofur hafa veitt keppninni brautargengi í sínu umdæmi og lagt henni ómetanlegt lið, en sjálft uppeldisstarfið, ræktun upplestrarins, hefur hvílt á herðum kennara.

Verkefnið hefur notið velvilja og stuðnings í ríkum mæli. Menntamálaráðherra, Lýðveldissjóður og Málræktarsjóður styrktu verkefnið fyrstu árin, bókaútgefendur hafa lagt til bókaverðlaun, bankar og sparisjóðir veitt peningaverðlaun, Mjólkursamsalan, kexgerðir og bakarí hafa lagt til veitingar við lokahátíðir, en blómabúðir blóm. 

Frá upphafi hefur verkefnið notið stuðnings menntamálaráðuneytisins, auk þess sem fjölmargir aðrir hafa styrkt verkefnið (í stafrófsröð): Akureyrarbær, Barnavinafélagið Sumargjöf, Byggðastofnun, Flugfélag Íslands, Fræðsluráð Reykjavíkur, Edda, Garðabær, Kennaraháskólinn, Kópavogsbær, Lýðveldissjóður, Málræktarsjóður, Mjólkursamsalan, Mosfellsbær, Reykjanesbær, Seðlabankinn, Seltjarnarnesbær, Skólaskrifstofa Hafnarfjarðar og Sparisjóðirnir.