Hátíðarhlutinn

Upplestrarhátíð

Kennari getur hvenær sem er efnt til upplestrarhátíðar í bekk eða með öðrum bekkjum í árgangi, óháð upplestrarkeppninni. Við þær hátíðir sem tengjast keppninni, þar sem valinn er fulltrúi bekkjar eða skóla, vilja Raddir mæla með að eftirfarandi háttur verði á hafður.

  • Miða skal fjölda lesara við að hátíðin taki ekki meira en eina kennslustund án hlés. Ef verkefni hvers lesara eru samtals 3–4 mínútur mega flytjendur ekki vera fleiri en 15. Ef velja þarf lesara úr stærri hópi verður að gera það í tveimur umferðum eða hafa hlé. Mikilvægt er að áætla tíma mjög vandlega fyrirfram og gera ráð fyrir skiptingum og lófataki.
  • Unnt er að halda upplestrarhátíð í skólastofu en betra er að halda hana á sal. Á upplestrarhátíð skal hafa ræðupúlt í þeirri hæð sem hæfir nem­endum. Snyrtilegur klæðnaður viðstaddra, blóm í vasa við hlið lesara, eða önnur skreyting, gefa athöfninni hátíðlegan svip og eru mikilvægt tákn um þá virðingu sem við sýnum móðurmálinu á stundu sem þessari.
  • Við upplestarhátíð er nauðsynlegt að bjóða áheyrendum, öðrum en þeim sem eiga að lesa. Bjóða má nemendum annarra bekkja, kennurum, skólastjóra eða foreldrum. Þegar fulltrúar skólans eru valdir til áframhaldandi keppni er unnt að leita til Radda um að tilnefna fulltrúa í dómnefnd. Að öðru leyti eru kennarar sjálfráðir um skipan dómnefndar. Gefist hefur vel að leita til annarra kennara, kennara í öðrum skólum, eldri nemenda eða foreldra sem ekki eiga hagsmuna að gæta í bekknum.
  • Áheyrendur eiga að sitja í sætum beint fyrir framan lesarann en ekki hanga á borðum og borðshornum eða standa með veggjum aftast í stofunni eða til hliðar. Fullorðnir eiga að sitja á lítt áberandi stað, aftarlega eða til hliðar, eða innan um aðra áheyrendur.
  • Gott er að nemendur lesi tvenns konar texta, laust mál og ljóð, a.m.k. eitt að eigin vali. Ef kennarar eða skipuleggjendur velja nemendum verkefni þurfa þau að vera sambærileg, en óæskilegt er að allir lesi hið sama. Mikilvægt er að nemendur skilji efnið og hafi ánægju af því. Ekki ættu fleiri en einn að lesa sama hluta óbundins máls en allt að þrír geta lesið sama ljóðið án þess að áheyrendum þyki það leiðigjarnt. Við val á ljóðum verður að gæta þess að þau séu ekki of stutt. Nemendur á þessum aldri ráða ekki við að flytja mjög stutt ljóð. Miða má við að lágmarkstími í flutningi sé 30 sekúndur.
  • Vel hefur reynst að láta nemendur lesa í tveimur eða þremur umferðum: Fyrst lesi allir til dæmis óbundið mál, þá ljóð o.s.frv. Til að svo megi gera verða skiptingar að ganga snurðulaust. Næsti lesari ætti jafnan að vera tilbúinn þegar sá fyrri hættir og skark í borðum eða stólum má ekki heyrast undir neinum kringumstæðum. Heppilegt er að gera ráð fyrir lófataki í lok umferðar, en ekki á eftir hverjum og einum.
  • Við upplestrarhátíð skyldi umgangast nemendur eins og um fullorðna listamenn sé að ræða. Nemendur leggja sig fram um að flytja góðan skáldskap á listrænan hátt og allur umbúnaður skal vera í samræmi við það. Áður en flutningur hefst segir kynnir deili á flytjendum eða þeir kynna sig sjálfir. Sjálfir kynna þeir eftir atvikum það sem þeir ætla að flytja. Skipuleggjendur ættu að hafa vatnskönnu og glös á borði við hlið ræðupúlts og leiðbeina hinum ungu lesurum um að notfæra sér það ef þeir eru taugaóstyrkir og þurrir í munni.