Samstarf

Framkvæmd upplestrarkeppninnar veltur á samstarfi Radda, skólaskrifstofa, skólastjóra og kennara. Raddir hafa fengið styrk til að ráða sér verkefnisstjóra sem heldur sambandi við kennara, skólastjóra og fræðsluyfirvöld á hverjum stað fyrir hönd samtakanna. 

Raddir verða að reiða sig á að skólaskrifstofur, eða fulltrúar þeirra, beri hitann og þungann af samskiptum við skólana og undirbúning lokahátíðar. Raddir styðja hins vegar skólaskrifstofurnar í þessu starfi með ráðum og dáð. Til að auðveldara sé að vera skrifstofunum innan handar, höfum við leitað eftir því við Heimili og skóla og Samtök móðurmálskennara að þau skipi fulltrúa sína í héraðsnefndir sem verði skólaskrifstofum innan handar um útvegun verðlauna, húsnæðis og fleira. Í stuttu máli má segja að hlutverk skólaskrifstofa sé fyrst og fremst fólgið í umsjón, stjórnun og framkvæmd, en hlutverk Radda sé fólgið í fræðslu, ráðgjöf, aðstoð og stuðningi.