Fréttasafn

Verðlaun fyrir upplestur

9. mar. 2016

Fjórtán nemendur úr 7. bekkjum grunnskóla Hafnarfjarðar tóku þátt í Stóru upplestrarkeppninni í ár og lásu þeir texta Bryndísar Björgvinsdóttur og Guðmundar Böðvarssonar, fyrirfram ákveðin ljóð og ljóð að eigin vali. Allir þessir fjórtán nemendur stóðu uppi sem sigurvegarar og fengu að gjöf bækur, sundkort og Átthagaspilið um Hafnarfjörð. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, sá um afhendingu á viðurkenningum til nemenda fyrir frammistöðu þeirra. Dómnefnd valdi að lokum þrjá bestu upplesarana, þau Anton Fannar Johansen í Setbergsskóla (3. sæti), Mímir Kristínarson Mixa í Lækjarskóla (2. sæti) og Önnu Völa Guðrúnardóttur í Víðistaðaskóla (1. sæti).  Verðlaun og viðurkenningar til þeirra afhenti mennta- og menningarmálaráðherra, Illugi Gunnarsson. Í dómnefnd sátu Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir,  Árni Sverrir Bjarnason, Hrefna Sigurjónsdóttir og Þórhallur Heimisson.  

Talkór, tónleikar og smásögur með góðan boðskap

Veittar voru viðurkenningar fyrir boðskort hátíðar og smásögur í smásagnasamkeppni sem sett var af stað á Degi íslenskrar tungu í 8.-10. bekkjum grunnskólanna. Listamaðurinn ungi sem átti verðlaunamynd á boðskorti var Mattías Makusi Kata, nemandi  í Lækjarskóla. Þrjár smásögur voru verðlaunaðar: Ekki er allt sem sýnist eftir Rakel Ósk Sigurðardóttir nemanda í 10. bekk í Hraunvallaskóla, Upprennandi Íslendingur eftir Rögnu Dúu Þórsdóttur nemanda í 10. bekk í Lækjararskóla og Sama hvað eftir Alexöndru K. Hafsteinsdóttur, nemenda í 10. bekk í Víðistaðaskóla sem hlaut fyrstu verðlaun. Sex skólar í Hafnarfirði tóku þátt í smásagnasamkeppninni í ár og bárust 22 sögur í keppnina. Efni smásagna var nokkuð frjálst en reyndust vinningssögurnar eiga það sammerkt að taka á einelti og fordómum.  Nemendur í lúðrasveit Víðistaðaskóla settu hátíðlegan blæ á samkomuna í Hafnarborg með hressilegum lúðratónum, hljómsveit frá Tónhvísl með rokkuðum lögum og nemendur í 4. bekk í Öldutúnsskóla með talkór. Talkórinn hefur æft sig í allan vetur við flutning móðurmálsins og flutti saman ljóðið Orð eftir Þórarinn Eldjárn og mánaðaþulu eftir Kristján Hreinsson sem hann orti sérstaklega fyrir Litlu upplestrarkeppnina nú í ár.  

Allir nemendur í 7. bekk á landsvísu taka þátt í keppninni

Fyrsta upplestrarhátíðin var haldin í Hafnarfirði þann 4. mars 1997 og fljótt bættust fleiri bæjarfélög í hópinn. Síðustu 16 árin hafa allir nemendur í 7. bekk á landvísu tekið þátt í keppninni. Markmiðið frá upphafi hefur verið að vekja athygli og áhuga í skólum á vönduðum upplestri og framburði og skapa tækifæri fyrir kennara og foreldra að leggja markvissa rækt við einn þátt móðurmálsins, vandaðan upplestur og framburð. Hver skóli ákveður þátttöku að hausti og velur tvo fulltrúa á glæsilegum hátíðum innan skólanna til að taka þátt í Stóru upplestrarkeppninni fyrir sína hönd. Landsvæðin taka sig svo saman og halda lokahátíð þar sem valdir fulltrúar koma saman og keppa fyrir hönd síns skóla.