Ingibjörg heiðruð
Ingibjörg Einarsdóttir, skrifstofustjóri á Skólaskrifstofu Hafnarfjarðar og formaður Radda, samtaka um vandaðan upplestur og framsögn, var heiðruð af menntamálaráðherra í tilefni af 20 ára afmæli Stóru upplestrarkeppninnar á Íslandi. Í tilefni afmælisins var málþing Íslenskrar málnefndar haldið fimmtudaginn 12. maí í Norræna húsinu þar sem mennta- og menningarmálaráðherra skrifaði upp á stuðnings ráðuneytis síns við verkefnið.
Stóra upplestrarkeppnin hófst sem þróunarverkefni í grunnskólum Hafnarfjarðar árið 1996 en það ár kom Ingibjörg einnig til starfa á Skólaskrifstofuna. Keppnin var mótuð í samstarfi við grunnskóla í Hafnarfirði fyrsta skólaárið en síðan fjölgaði þeim sveitarfélögum sem taka þátt í keppninni. Núna árið 2016 taka allir grunnskólar á landinu þátt í keppninni sem hafa nemendur í 7. bekk. Fá ef nokkur verkefni hafa haft slíka útbreiðslu í íslenskum grunnskólum.
Stóra upplestrarkeppnin, sem í upphafi var rekin af Skólaskrifstofu Hafnarfjarðar, er í dag rekin af Samtökunum Raddir. Hafnarfjörður styður þó við keppnina og er m.a. vefur Stóru upplestrarkeppninnar geymdur hjá Hafnarfjarðarbæ, upplestur.hafnarfjordur.is, þar sem ítarlegar upplýsingar má finna um keppnina.
Ingibjörg hefur einnig haft veg og vanda að nýrri upplestrarkeppni, Litlu upplestrarkeppninni sem haldin er í 4. bekk á grunni hugmynda í Stóru upplestarkeppninni en þó með einfaldara sniði. Hún hefur verið haldin í Hafnarfirði í nokkur ár. Hver veit hvað á eftir að gerast með þá keppni sem þegar er farin að ná til annarra sveitarfélaga.
Til hamingju Ingibjörg! Á myndinni hjá sjá Ingibjörgu taka á móti viðurkenningu mennta- og menningarmálaráðherra, Illuga Gunnarssyni, fyrir framlag sitt í Stóru upplestrarkeppninni.