Undirbúningur
Undirbúningur í bekk
Með því að taka þátt í keppninni hefur kennari tekið ákvörðun um að gera upplestur að sérstöku viðfangsefni í kennslu sinni. Allir nemendur í bekk taka þar með formlega þátt í keppninni. Ef einhver skorast undan þarf kennari að beita sérstakri lagni til að fá hann til að vera með. Brýnt er að fara að nemendum með gát. Ástæður feimni geta verið margar og ef geyst er farið getur komið upp kergja í hópnum sem erfitt er að eiga við. Þó er líklegt að nemanda sé mikill greiði gerður ef tekst að sigrast á feimninni með góðu.Ræktunarhluti keppninnar, sjálft bekkjarstarfið, er í rauninni sá hluti keppninnar sem máli skiptir. Honum lýkur við hátíðlega athöfn með því að hver skóli velur einn lesara eða fleiri, og jafn marga til vara, til að taka þátt í lokahátíð héraðsins. Í litlum skólum má gera ráð fyrir að árgangurinn geti allur sameinast um eina hátíð, en í stórum skólum getur þurft að velja fyrst fulltrúa hvers bekkjar, sem síðan leiða saman hesta sína við stærri athöfn á sal skólans.
Upplestrarhátíð
Kennari getur hvenær sem er efnt til upplestrarhátíðar í bekk eða með öðrum bekkjum í árgangi, óháð upplestrarkeppninni. Við þær hátíðir sem tengjast keppninni, þar sem valinn er fulltrúi bekkjar eða skóla, vilja Raddir mæla með að eftirfarandi háttur verði á hafður.
Kennari getur hvenær sem er efnt til upplestrarhátíðar í bekk eða með öðrum bekkjum í árgangi, óháð upplestrarkeppninni. Við þær hátíðir sem tengjast keppninni, þar sem valinn er fulltrúi bekkjar eða skóla, vilja Raddir mæla með að eftirfarandi háttur verði á hafður.
- Miða skal fjölda lesara við að hátíðin taki ekki meira en eina kennslustund án hlés. Ef verkefni hvers lesara eru samtals 3–4 mínútur mega flytjendur ekki vera fleiri en 15. Ef velja þarf lesara úr stærri hópi verður að gera það í tveimur umferðum eða hafa hlé. Mikilvægt er að áætla tíma mjög vandlega fyrirfram og gera ráð fyrir skiptingum og lófataki.
- Unnt er að halda upplestrarhátíð í skólastofu en betra er að halda hana á sal. Á upplestrarhátíð skal hafa ræðupúlt í þeirri hæð sem hæfir nemendum. Snyrtilegur klæðnaður viðstaddra, blóm í vasa við hlið lesara, eða önnur skreyting, gefa athöfninni hátíðlegan svip og eru mikilvægt tákn um þá virðingu sem við sýnum móðurmálinu á stundu sem þessari.
- Við upplestarhátíð er nauðsynlegt að bjóða áheyrendum, öðrum en þeim sem eiga að lesa. Bjóða má nemendum annarra bekkja, kennurum, skólastjóra eða foreldrum. Þegar fulltrúar skólans eru valdir til áframhaldandi keppni er unnt að leita til Radda um að tilnefna fulltrúa í dómnefnd. Að öðru leyti eru kennarar sjálfráðir um skipan dómnefndar. Gefist hefur vel að leita til annarra kennara, kennara í öðrum skólum, eldri nemenda eða foreldra sem ekki eiga hagsmuna að gæta í bekknum.
- Áheyrendur eiga að sitja í sætum beint fyrir framan lesarann en ekki hanga á borðum og borðshornum eða standa með veggjum aftast í stofunni eða til hliðar. Fullorðnir eiga að sitja á lítt áberandi stað, aftarlega eða til hliðar, eða innan um aðra áheyrendur.
- Gott er að nemendur lesi tvenns konar texta, laust mál og ljóð, a.m.k. eitt að eigin vali. Ef kennarar eða skipuleggjendur velja nemendum verkefni þurfa þau að vera sambærileg, en óæskilegt er að allir lesi hið sama. Mikilvægt er að nemendur skilji efnið og hafi ánægju af því. Ekki ættu fleiri en einn að lesa sama hluta óbundins máls en allt að þrír geta lesið sama ljóðið án þess að áheyrendum þyki það leiðigjarnt. Við val á ljóðum verður að gæta þess að þau séu ekki of stutt. Nemendur á þessum aldri ráða ekki við að flytja mjög stutt ljóð. Miða má við að lágmarkstími í flutningi sé 30 sekúndur.
- Vel hefur reynst að láta nemendur lesa í tveimur eða þremur umferðum: Fyrst lesi allir til dæmis óbundið mál, þá ljóð o.s.frv. Til að svo megi gera verða skiptingar að ganga snurðulaust. Næsti lesari ætti jafnan að vera tilbúinn þegar sá fyrri hættir og skark í borðum eða stólum má ekki heyrast undir neinum kringumstæðum. Heppilegt er að gera ráð fyrir lófataki í lok umferðar, en ekki á eftir hverjum og einum, sjá nánar í leiðbeiningum um skipulag lokahátíðar í héraði.
- Við upplestrarhátíð skyldi umgangast nemendur eins og um fullorðna listamenn sé að ræða. Nemendur leggja sig fram um að flytja góðan skáldskap á listrænan hátt og allur umbúnaður skal vera í samræmi við það. Áður en flutningur hefst segir kynnir deili á flytjendum eða þeir kynna sig sjálfir. Sjálfir kynna þeir eftir atvikum það sem þeir ætla að flytja. Skipuleggjendur ættu að hafa vatnskönnu og glös á borði við hlið ræðupúlts og leiðbeina hinum ungu lesurum um að notfæra sér það ef þeir eru taugaóstyrkir og þurrir í munni.
Raddir leggja mikla áherslu á að foreldrar og annað vinnandi fólk hafi tök á að sækja hátíðarnar. Komin er góð reynsla á tvær tegundir hátíða, síðdegishátíðir og kvöldhátíðir, þar sem hvor tegund hátíða hefur sinn sérstaka brag. Til þess að foreldrar geti tekið þátt í hátíðinni er hæpið að byrja síðdegishátíð fyrr en kl. 16.00 en kvöldhátíðir hefjast yfirleitt um kl. 20.00.
Húsnæði
Heppilegt er að lokahátíð fari fram í fallegum sal í byggðarlaginu, gjarnan listasafni. Hljóðkerfi þarf að vera í lagi og góð birta við púlt eða hljóðnema þar sem nemendur lesa. Æskilegt er að í salnum sé gott hljóðfæri.Fjöldi keppenda
Hver skóli sendir einn eða fleiri fulltrúa til lokahátíðar, allt eftir því hvað skólar eru margir og stórir. Æskilegur fjöldi keppenda á lokahátíð er á bilinu 12 til 15. Þá er við það miðað að athöfnin taki ekki meira en tvær klukkustundir með hléi, og að verkefni hvers lesara séu um þrjár til fjórar mínútur samtals.Skipuleggjendur á hverjum stað setja nánari reglur um fjölda fulltrúa frá hverjum skóla. Til greina kemur að allir skólar sendi jafn marga fulltrúa, eða miða fjölda fulltrúa við stærð skóla eða fjölda bekkja.
Þar sem skólar eru fámennir hefur meginreglan verið sú að skilja aldrei einn útundan. Ef tveir nemendur eru í árgangi sendir skólinn báða. Ef þrír nemendur eru í árgangi sendir skólinn einn nema talið sé heppilegra að senda tvo af félagslegum ástæðum innan árgangsins. Þetta verða skipuleggjendur á hverjum stað að ákveða í samráði við skólana.
Hlutverk kynnis
Kynnir á lokahátíð ber mikla ábyrgð á að hátíðin fari vel fram. Hann býður gesti velkomna, segir frá verkefninu og markmiðum þess, kynnir dagskrána, segir deili á keppendum og öðrum listamönnum sem fram koma eða lætur þá kynna sig sjálfa. Í lokin er það hlutverk kynnis að þakka öllum sem fram komu á hátíðinni áður en hann slítur henni.Skipulag upplestrar í umferðum, lófatak
Lesið er í þremur aðskildum umferðum. Það auðveldar mjög störf dómnefndar, og getur reynst lykilatriði þar sem lesarar eru mjög jafnir.Í fyrstu umferð, fyrir hlé, eru lesnar stuttar sögur, ein eða fleiri, samtals um 15–20 mínútur. Hver saga er lesin í samfellu en henni skipt í hæfilega búta (liðlega ein mínúta á mann) sem keppendur lesa hver á eftir öðrum án þess að hlé verði á milli.
Sá sem hefur lestur sögu kynnir söguna, eitthvað á þessa leið: „Við ætlum að lesa söguna … eftir … “ eða: „Nú verður lesin sagan … eftir …“. Þeir sem á eftir koma lesa sinn hluta sögunnar hiklaust beint af augum og án frekari kynningar. Gert er ráð fyrir lófataki þegar allir hafa lokið lestri sínum eða í lok hverrar sögu ef þær eru fleiri en ein.
Eftir hlé lesa keppendur ljóð í tveimur umferðum. Í fyrri umferð eftir hlé lesa keppendur nokkur ljóð sem Raddir hafa valið. Hver nemandi velur eitt ljóð. Gert er ráð fyrir lófataki þegar allir hafa lokið lestri sínum.
Í síðari umferð eftir hlé lesa keppendur ljóð að eigin vali. Sú umferð hefur verið hápunktur keppninnar hingað til. Hvert ljóð tekur á bilinu 30 til 90 sekúndur í flutningi. Hér koma keppendur fram sem einstaklingar og nú má klappa fyrir hverjum og einum.
Röð keppenda og skiptingar
Mikilvægt er að skiptingar allar gangi greiðlega við upplesturinn. Í því skyni sitja keppendur á sviðinu að baki lesara, gegnt áheyrendum, og ganga beint að hljóðnema úr sæti sínu. Næsti lesari stendur jafnan við hlið þess sem les hverju sinni og hefur lesturinn um leið og hinn er genginn frá, nema þegar klappað er á milli.Röð lesara er ákveðin fyrirfram í samráði við dómnefnd en röð er breytt milli umferða eftir ákveðinni reglu til þess að ekki séu sömu lesarar alltaf í upphafi og lok hverrar umferðar. Ef miðað er við að keppendur lesi í fyrstu umferð í röð frá nr. 1 til nr. 15 byrjar keppandi nr. 5 í annarri umferð. Síðan lesa keppendur í sömu röð og áður og endað á keppanda nr. 4. Í þriðju umferð er byrjað á keppanda nr. 10 og endað á nr. 9. Breytingu á röð milli umferða má hnika til miðað við fjölda keppenda, byrja aðra umferð á nr. 4 eða 6, og þannig koll af kolli.
Tónlistaratriði
Vel fer á að hefja hátíð með tónlistaratriði eða öðru skemmtiatriði. Sömuleiðis þarf að gera ráð fyrir tónlistaratriði meðan beðið er eftir úrskurði dómnefndar. Þeir sem þá koma fram þurfa að geta leikið í 15–25 mínútur, en geta dregið sig í hlé þegar dómnefnd hefur lokið störfum.Gott er að leita til tónlistarskóla héraðsins, skólakóra, hljómsveita eða annarra ungra tónlistarmanna. Gera má ráð fyrir einhverjum kostnaði við þennan lið dagskrárinnar.
Önnur skemmtiatriði
Lokahátíðir upplestrarkeppninnar hafa reynst góður vettvangur fyrir listflutning ungs fólks. Á evrópsku tungumálaári, árið 2001, var tekinn upp sá siður að fá nemendur í 7. bekk, af erlendu bergi brotna, til að flytja ljóð á móðurmáli sínu. Sá siður hefur víða skotið rótum og á vel við þar sem nýbúar eru í árganginum. Vanda þarf undirbúning slíks flutnings og segja áheyrendum deili á efni ljóðanna.Ávörp
Áður en keppni hefst er ekki úr vegi að framámaður héraðsins í skólamálum eða stjórnmálum flytji stutt ávarp. Fulltrúi Radda getur sagt fáein orð sé þess óskað.Brýnt er að setja ávörpum og öðrum skemmtiatriðum í upphafi ströng tímamörk því annars dregst hátíðin óþarflega á langinn. Inngangur athafnarinnar í heild, kynningar og ávörp, má alls ekki fara yfir 15 mínútur.
Veitingar í hléi
Ekki er frágangssök þótt fullorðnir gestir kaupi sér veitingar sjálfir en gaman er að geta gefið börnunum hressingu. Mjólkursamsalan hefur hingað til lagt til drykki, en sælgætisgerðir, bakarí eða foreldrafélög á hverjum stað hafa lagt til einhvern bita.Dómnefnd
Dómnefnd er skipuð tveimur fulltrúum Radda og tveimur til þremur fulltrúum heimamanna. Hæfilegt er að fjórir til fimm skipi dómnefnd. Annar fulltrúi Radda er formaður. Heppilegt er ef dómnefnd, eða hluti hennar, hefur átt þess kost að kynnast keppendum lítillega með því að fylgjast með æfingu eða upplestrarhátíðum í skólum á svæðinu.Dómnefndarmaður er vanhæfur ef hann er tengdur einstökum keppendum, vinar- eða ættartengslum, eða hefur kennt þeim í skóla. Formaður dómnefndar úrskurðar um vafaatriði. Sumir dómnefndarmenn hafa ef til vill tekið þátt í að velja fulltrúa einstakra skóla. Það gerir þá ekki vanhæfa til setu í dómnefnd á lokahátíð.
Formaður dómnefndar skal vera kominn á vettvang eigi síðar hálftíma áður en hátíðin er sett og fara yfir dagskrá með skipuleggjendum og kynni. Aðrir dómnefndarmenn skulu vera komnir eigi síðar en 15 mínútum fyrir setningu til að hitta formann og fara yfir vinnubrögð við dómnefndarstörf.
Gæta þarf þess að dómnefnd sitji á lítt áberandi stað, séð frá sviðinu, en hún þarf samt að geta séð keppendur vel. Dómnefnd getur setið til hliðar í salnum eða innan um aðra áheyrendur fyrir miðjum sal en hvorki á fremsta bekk né úti í horni. Óþarfi er að kynna dómnefnd sérstaklega fyrr en hún kynnir niðurstöður sínar.
Dómnefnd metur keppendur algerlega hlutlaust með tilliti til ættar, uppruna, kyns eða skóla. Þó er heimilt að taka tillit til skóla eða kyns ef keppendur eru hnífjafnir að öðru leyti svo verðlaun dreifist betur. Til þess að koma til greina í verðlaunasæti þarf upplesari að hafa staðið sig vel í öllum umferðum. Til greina kemur að veita keppanda, sem skarar fram úr í einni umferð, sérstök aukaverðlaun en hann ætti ekki að ryðja lesurum, sem standa sig vel í öllum umferðum, úr verðlaunasæti. Yfirdrifin leikræn túlkun er ekki metin til verðlauna, sjá leiðbeiningar um mat á upplestri.
Undirbúningur og æfing
Nauðsynlegt er að æfa lokahátíð keppninnar á vettvangi einu sinni. Prófa þarf staðsetningu keppenda á sviðinu, skiptingar, hljómflutningstæki og lýsingu. Flytjendur verða að fá tækifæri til að lesa texta sinn og kynnast því hvernig rödd þeirra hljómar í húsnæðinu. Búast má við að leiðbeina þurfi sérstaklega um raddbeitingu við þessar aðstæður.Að fenginni reynslu skal bent sérstaklega á að stilla þarf hæð hljóðnema, hljóðmögnun og lýsingu sem best hentar keppendum.
Gestir
Mikilvægt er að sjá til þess að lokahátíðir keppninnar, bæði í skólum og í héraði, séu vel sóttar af nemendum, aðstandendum þeirra og vinum. Reynslan hefur sýnt að jafnan kemur nokkur hluti bekkjarsystkina á lokahátíð í héraði. Afskaplega ánægjulegt er ef þau koma og húsrúm leyfir.Rétt er að bjóða sérstaklega helstu framámönnum héraðsins í skóla- og menntamálum, héraðshöfðingjum, skólanefndarmönnum, foreldraráðum og stjórnum foreldrafélaga, skólastjórum og kennurum. Skynsamlegt er að áætla fjölda gesta fyrirfram með nokkurri nákvæmni.
Verðlaun og viðurkenningar
Allir þátttakendur á lokahátíð fá bókarverðlaun en þrír bestu lesararnir fá peningaverðaun að auki, samtals 30 þúsund krónur. Þessum verðlaunum má skipta í þrjá jafna eða ójafna hluta, allt eftir því hvort skipuleggjendur vilja aðgreina verðlaunasætin þrjú eða ekki. Reiknað er með að annarra viðurkenninga sé aflað í héraði ef þurfa þykir og sjá héraðsnefndir um það í samvinnu við skólaskrifstofu.Afhending verðlauna og viðurkenninga getur verið með ýmsu móti og fer eftir aðstæðum hverju sinni.
- Allir flytjendur fá bókarverðlaun.
- Sums staðar fá kennarar blóm, stundum flytjendur sjálfir, og jafnvel skólastjórarnir.
- Formaður dómnefndar tilkynnir val á þremur bestu upplesurunum og afhendir þeim sérstakt verðlaunaskjal frá Röddum. Fulltrúi sparisjóðsins
- flytur stutt ávarp og afhendir þeim verðlaun sparisjóðsins - eða formaður dómnefndar í hans stað.
- Kennarar/skólastjórar verðlaunahafa fá einnig verðlaunaskjal frá Röddum.
Stundum vill dragast að dómnefnd komist að niðurstöðu og dregst þá hátíðin óþarflega á langinn. Nýta má þann tíma sem þar skapast til að veita þau verðlaun og viðurkenningar, sem óháð eru niðurstöðu dómnefndar.
Afhending verðlauna skal vera síðasti liður dagskrárinnar. Eftir það sér kynnir um að kveðja gesti og slíta hátíðinni.