Markmið

Markmið upplestrarkeppni í 7. bekk grunnskóla er að vekja athygli og áhuga í skólum á vönduðum upplestri og framburði. Rétt er að taka fram að keppnin sjálf er í rauninni aukaatriði og forðast skyldi að einblína á sigur. 
Mestu skiptir að kennarar nýti þetta tækifæri til að leggja markvissa rækt við einn þátt móðurmálsins með nemendum sínum, vandaðan upplestur og framburð, og fái alla nemendur til að lesa upp, sjálfum sér og öðrum til ánægju. 

Stefnt skyldi að því að allur upplestur í tengslum við keppnina sé fremur í ætt við hátíð en keppni. Þetta á ekki síst við um lokahátíð keppninnar.

Kjörorð verkefnisins eru þrjú:

Vöndum flutning og framburð íslensks máls. 
Lærum að njóta þess að flytja móðurmál okkar, sjálfum okkur og öðrum til ánægju. 
Berum virðingu fyrir móðurmálinu, sjálfum okkur og öðrum. 

Þess er vænst að þessi kjörorð megi stuðla að því að efla veg hins talaða máls í skólum og skapa þann skólabrag eða skólamenningu sem við getum öll verið stolt af.