Ræktunarhlutinn

Ræktunarhluti keppninnar, sjálft bekkjarstarfið, er í rauninni sá hluti keppninnar sem máli skiptir. Honum lýkur við hátíðlega athöfn með því að hver skóli velur einn lesara eða fleiri, og jafn marga til vara, til að taka þátt í lokahátíð héraðsins. Í litlum skólum má gera ráð fyrir að árgangurinn geti allur sameinast um eina hátíð, en í stórum skólum getur þurft að velja fyrst fulltrúa hvers bekkjar, sem síðan leiða saman hesta sína við stærri athöfn á sal skólans.
Meginatriði í því ræktunarstarfi sem fram fer í bekknum má taka saman í átta lykilatriði:

Vöndum flutning og framburð íslensks máls. 
Lærum að njóta þess að flytja móðurmál okkar, sjálfum okkur og öðrum til ánægju. 
Berum virðingu fyrir móðurmálinu, sjálfum okkur og öðrum. 
Lesum aldrei upp fyrir aðra án undirbúnings. 
Lesum á hæfilegum hraða, hvorki of hratt né of hægt. 
Gerum alltaf kröfu um listrænan flutning. 
Sýnum upplesara virðingu eins og listamanni. 
Upplestur á að vera öllum til ánægju – alltaf. 

Lykilatriði um upplestur

Lykilatriði upplestrarkeppninnar er að leggja rækt við undirbúinn vandaðan upplestur. Aldrei ætti að láta nemendur lesa óundirbúið í skólastofunni og kennari ætti ævinlega að gera kröfu til nemenda um vandaðan lestur og túlkun texta.

Kenna þarf nemendum að vandaður upplestur – eða leiklestur – er listrænn flutningur texta. Kenna þarf nemendum að undirbúa sig, fá þá til að æfa sig heima, lesa sama textann margoft, líkt og þegar leikari býr sig undir að flytja texta í útvarp eða á sviði. Nemendur þurfa að ná tökum á eðlilegri hrynjandi í upplestri, læra að beita blæbrigðum raddarinnar til að túlka textann og gæða hann lífi, og kveða svo skýrt að orðunum að þau heyrist og skiljist út í hvert horn skólastofunnar. Kenna þarf skýran framburð sérhljóða og samhljóða, einkum þarf að leggja rækt við tvíhljóð og önghljóð, og gæta þess að atkvæði falli ekki niður – nema þar sem það á við. 

Vandaður upplestur er óhugsandi án undirbúnings. Markmiðið er að lestur­inn sé svo vel undirbúinn og nemandi svo öruggur að ekki sé lengur um lestur að ræða, heldur flutning, sambærilegan við það sem menn eiga að venjast í útvarpi. Upplestur í margmenni – líkt og í skólastofu – er tilgangslaus nema hann sé ætlaður áheyrendum til skilnings og ánægju.

Upplestur í skólastofu

Í kennslu er í höfuðdráttum um tvo kosti að velja. 

Annars vegar er um að ræða að gera vandaðan upplestur að sérstökum dagskrárlið í kennslunni. Tilvalið er að hefja hvern tíma á að tveir til þrír nem­endur lesi ljóð eða stutta frásögn, annaðhvort að eigin vali eða í sam­ráði við kennara. Þessi liður gæti tekið 5–10 mínútur. Til lestrar henta hvers kyns ljóð, en af lausu máli má benda á þjóðsögur og ævintýri af öllu tagi, dæmisögur, gamansögur og skrýtlur, og efni úr dagblöðum. Notast má við efni sem til er í skólanum, s.s. Ljóðspor, sagnasöfn og lesarkir ýmsar, eða fá nemendur til að velja efni í samráði við foreldra úr bókaskáp heimilisins. 

Hins vegar kemur til greina að flétta vandaðan upplestur inn í það sem verið er að lesa í íslensku og öðrum námsgreinum. Bókmenntir og kristinfræði henta sérstaklega vel í þessu skyni. Algengt er að kennarar lesi í tímanum – eða láti nemendur lesa – brot úr þeim verkum sem þeir eiga að lesa heima. Slíkt er eðlilegt til að skapa grundvöll að umræðu um efni verkanna í kennslustundinni. Í stað þess að láta nemendur lesa óundirbúið, eins og oft er gert, getur kennari skipulagt fyrirfram hvaða hlutar verksins skuli lesnir og hver lesi hvað. Undirbúningur að upplestri krefst þess að lesarinn setji sig inn í efni textans til hlítar og góður flutningur gerir mörgum auðveldara með að skilja textann heldur en þegar lesið er í hljóði.

Skipta má hlutverkum með tvennu móti. Annars vegar má láta hvern nemanda lesa ákveðnar textaheildir, t.d. ljóð í heild eða einstök erindi, stutta sögu eða atriði úr lengri sögu. Oft er mikið um samtöl í sögum. Þá má skipta lesmálinu milli nemenda eftir hlutverkum og láta þá leiklesa hana í tímanum. Sögumannshlutverki má skipta milli nokkurra nemenda ef ástæða er til að jafnræði sé með flytjendum. 

Ekki er óeðlilegt að þrír til sex nemendur lesi dag hvern með þessum hætti. Óþarfi er að flytja í skólastofunni lengri hluta verks en kennari hafði ætlað sér að láta lesa hvort eð var. Kennari verður hins vegar að skipuleggja flutning með nokkrum fyrirvara og láta nemendur vita hvaða texta þeir eiga að flytja eigi síðar en daginn áður. Undirbúinn flutningur af þessu tagi krefst engra sérstakra tilfæringa og þarf ekki að hafa nein áhrif á kennsluhætti að öðru leyti. 

Flutningur leikrita er kærkomið tækifæri til að leggja rækt við framburð og framsögn. Ef ekki eru tök á að sviðsetja leikrit má benda á að nemendur hafa gaman af að hlusta á styttri verk leiklesin. Það krefst minni tíma, unnt er að taka fleiri verk til flutnings og fleiri nemendur fá tækifæri til að spreyta sig.

Sérstaklega er vert að benda á að sögur Biblíunnar í kristinfræði eru mjög leikrænar og mikið um samtöl. Þar eru orð iðulega lögð í munn „prestum“, „fólkinu“ og fleiri hópum. Kórar eru látnir mæla þessi orð þegar sögur Biblíunnar eru fluttar á sviði. Hiklaust ætti að nýta sér þennan möguleika í skólastofunni og velja jafnan lítinn hóp nemenda í kórinn hverju sinni. 

Að leiðbeina nemendum

Nauðsynlegt er að nemendur standi upp og lesi yfir hópinn. Þegar nemendur lesa úr sæti sínu slaknar framburður og flutningur, og upp­lesturinn glatar tilgangi sínum. Í litlum stofum getur reynst erfitt að fá nemendur til að brýna raustina og kveða nægilega skýrt að. Kennarar hafa ýmis ráð við þessu, t.d. láta lesara fara fram á gang eða inn í geymslu, „lesa fyrir horn“ í L-laga stofum eða fara bak við þil þar sem þess er kostur.

Upplestur fyrir hóp getur reynt töluvert á taugarnar og því verður að fara mjög gætilega ef nemendur eru ekki vanir að standa upp fyrir framan bekkinn. Til að vinna bug á óöryggi eða feimni hefur reynst vel að láta nokkra nemendur koma upp saman. 

Tvennt skyldi forðast þegar nemandi stendur í fyrsta sinn fyrir framan bekkinn. Hann á ekki að þurfa að segja til nafns og hann á ekki að lesa texta eftir sjálfan sig. Sagan af kirkjusmiðnum á Rein er gott dæmi um ótta manneskjunnar frá fornu fari við að heyra nafn sitt nefnt og allar athugasemdir um lestur eigin texta tekur nemandi sem gagnrýni á það sem hann hefur skrifað. 

Eftir því sem nemendum vex fiskur um hrygg má taka sérstaklega á einstökum atriðum. Í stað þess að finna að er betra að beita hvatningu og hrósi, til dæmis með því að biðja nemanda að lesa aftur, hærra og skýrar, biðja um ákveðnar áherslur eða skýrari, lengri sérhljóð, greinilegri tvíhljóð, eða biðja um ákveðna tegund túlkunar, meiri reiði, sorg eða gleði. Óhætt er að láta nemendur endurtaka sama texta nokkrum sinnum þar til árangri er náð. Að lokinni endurtekningu er auðvelt að hrósa hverjum og einum fyrir framfarir. Varasamt er að láta nemendur vega og meta frammistöðu einstakra lesara fyrr en hópurinn er allur orðinn öruggur með sig. 

Hættulegt getur verið að gera athugasemdir við frammistöðu lesara fyrr en kennari finnur að nemendur eru tilbúnir að taka slíkum athugasemdum. Miklu fremur skyldi hæla nemendum, hvetja þá til dáða og gera að umtalsefni það sem vel er gert. Óþarfi er í byrjun að fjalla um einstaka lesara. Fremur ætti að fara almennum orðum um lestur nokkurra nemenda í senn, eða hópsins í heild, þannig að hver geti tekið til sín það sem hann á. 

Þótt gerð sé krafa um listrænan flutning er rétt að vara við oftúlkun og yfirdrifinni leikrænni tjáningu.

Gefa þarf sérstakan gaum að þeim sem slakir eru í lestri, og jafnvel taldir ólæsir. Reynslan hefur sýnt að margir þeirra geta lesið dável upp – og hafa gaman af – þegar þeir fá hæfilega stuttan texta og tækifæri til að æfa sig heima. Mikilvægt er að efla sjálfstraust þessara nemenda og ánægju af lestri.

Komið hefur fyrir að sumir nemendur, einkum drengir, lýsi því yfir í sameiningu að þeir taki ekki þátt í keppninni. Þar með lýsa þeir því yfir að þeir taki ekki þátt í bekkjarstarfinu. Slíkt er vitaskuld ekki ásættanlegt fyrir kennara. Allir nemendur bekkjarins verða að fá tilsögn um upplestur og tækifæri til að lesa upp. Hitt er svo annað mál hvort einhverjir kjósa að draga sig í hlé þegar að því kemur að velja bestu lesara bekkjarins. Reyna verður eftir föngum að koma í veg fyrir að slíkt gerist því það skapar óeiningu í bekknum.

Fræðsla um upplestur

Árið 1998 lét undirbúningsnefnd keppninnar gera myndbandið Hátt og snjallt um vandaðan upplestur, 22 mínútur að lengd. Á bandinu er fjallað um hvernig lesari nær sambandi við áheyrendur, um góða líkamsstöðu, rétta öndun, skýran fram­burð sérhljóða og sam­hljóða, áherslu, hrynjandi, hljómfall og raddbeitingu. Enn fremur er vikið nokkuð að því hvernig upp­lestur er undirbúinn með því að athuga textann sjálfan, gefinn gaumur að hugblæ hans, áhersluorðum og hrynjandi. Myndbandið er ætlað bæði kenn­urum og nemendum. Lýðveldissjóður, Málræktarsjóður og Mjólkur­sam­salan styrktu gerð bandsins en Bóksala kennaranema sér um dreifingu. 

Raddir bjóða upp á námskeið um vandaðan upplestur og framburð. Auglýst námskeið eru haldin árlega, en auk þess má panta bæði námskeið og fræðslufundi sérstaklega fyrir einstaka skóla eða skólaskrifstofur. Á námskeiðunum er fjallað er um kennslu í framburði, framsögn og raddbeitingu, og sýndar ýmsar leiðir við flutning ólíkra texta, til dæmis hvernig nota má talkór. 

Benda má kennurum á að notfæra sér snældur með vönduðum upplestri og bækur um talað mál, hlustun og framburð.